Starfsemi í Fókus næstu daga

 í flokknum: Fókus

Kæru foreldrar/forráðamenn

Miklar breytingar verða á starfsemi Fókus vegna Covid-19 veirunnar. Hefðbundið starf eins og við þekkjum það víkur fyrir eftirfarandi starfsemi sem hefst miðvikudaginn 18. mars. Margt getur þó breyst á næstu dögum og viljum við benda foreldrum að fylgjast vel með starfi Fókus inn á samfélagsmiðlum eða hér á heimasíðunni, sjá neðst í færslu.

Starfsemin verður eftirfarandi:

Hefðbundið 10-12 ára starf fellur niður í Fókus. Allar smiðjurnar í mars falla niður. Starfsfólk Fókus mun bjóða ákveðnum hópum í 5.-7. bekk að koma í heimsókn á ákveðnum dögum á sama tíma og verið hefur (kl. 14:00-16.00). Samstarf frístundastarfs og skóla skiptir miklu máli á tímum sem þessum og viljum við halda sambærilegu verklagi. Barnið þitt mun fá kynningu á því hvenær það má koma í Fókus. Ekkert barn má koma í Fókus nema tilheyra þeim hópi sem á tíma þann dag.
Við munum skipta starfinu upp í þrennt og verður starf við hvern skóla. Það er að segja þau börn sem eru í Ingunnarskóla mæta í Fókus við Kirkjustétt, þau börn sem eru í Sæmundarskóla mæta í nýja skúrinn okkar sem er staðsettur við hliðina á Fjósinu og þau börn sem eru í Dalskóla mæta í Dalskóla.

Unglingastarf Fókus verður með þeim hætti að einblínt verður á hópastarf. Almennar opnanir falla því niður og er dagskráin því ekki lengur í gildi. Hópastarfið verður þannig að við bjóðum ákveðnum hópum í 8.-10. bekk að koma í heimsókn á ákveðnum dögum frá klukkan 20:00-22:00). Hópaskiptingin fer eftir hvernig hópunum hefur verið skipt upp í skólanum.
Sama fyrirkomulag er fyrir unglingana og 10-12 ára, þeir unglingar sem geta mætt mega einungis mæta í aðstöðuna hjá sínum skóla.  Starfsfólk og unglingar ætla einnig að halda úti rafrænni félagsmiðstöð.

Rafræn félagsmiðstöð er þróunarverkefni sem sprettur upp af illri nauðsyn og ekki þekkt hér á landi en rafrænar félagsmiðstöðvar eru þekktar á norðurlöndunum. Unglingar eru miklir samfélagsmiðlanotendur og sem aldrei fyrr hvetjum við unglinga að eiga í samskiptum í gegnum þessa miðla. Félagsmiðstöðin Fókus ætlar að vera með mikið fræðsluefni fyrir unglinga og foreldra á samfélagsmiðlum og hvetjum við alla foreldra að taka virkan þátt í umræðunum.

Nánari útskýringar og auglýsingar um breytta starfshætti birtast á heimasíðu og samfélagsmiðlum Fókus á næstu dögum.

Starfsfólk Fókus eru að reyna að gera sitt allra besta við að halda frístundastarfinu gangandi í þessum furðulegu aðstæðum. Enginn veit hvernig best er að gera hlutina en ákvarðanir okkar eru teknar í samstarfi við skólana og með heilsu barna og unglinga í huga.

Endilega hafið samband við okkur ef þið hafið einhverjar spurningar

Kærar kveðjur
Starfsfólk Fókus

Instagram: fokusfelagsmidstod
Facebook: facebook.com/felagsmidstodinfokus

 

Nýlegar færslur
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt